Lög og reglugerðir

Nafn, félagssvæði og tilgangur

1. grein.

Félagið heitir “Vísir” og er stéttarfélag skipstjóra- og stýrimanna á Suðurnesjum. Heimili þess og varnarþing er í Keflavík. Félagssdvæðið nær yfir Gullbringusýslu sunnan Hafnarfjarðar, þ.e. Suðurnes.

2. grein.

Tilgangur félagsins er:

1. að fara með fyrirsvar félagsmanna við gerð kjarasamninga og vinna að öðrum hagsmunamálum þeirra, vernda réttindi þeirra og beita sér gegn hvers konar misrétti í launagreiðslum og starfskjörum.

2. að stuðla að framförum í fiskveiðum og siglingum og vinna að auknu öryggi sjófarenda.

3. að auka samstarf skipstjórnarmanna og sjómannastéttarinnar í heild á félagslegum, menningarlegum og efnahagslegum grundvelli.

Réttindi og skyldur

3. grein.

Rétt til að vera félagsmaður eiga allir, sem réttindi hafa samkvæmt íslenskum lögum til skipstjórnar og stýrimennsku á íslenskum fiskiskipum og eru búsettir og/eða starfandi á félagssvæðinu.

4. grein.

Hver sá er gerast vill félagsmaður skal sækja um það til félagsstjórnar og er honum skylt að gefa upplýsingar um fæðingardag og ár, heimilisfang, starfsréttindi og annað sem þurfa þykir. Stjórnin kannar hvort umsækjandi fullnægir inntökuskilyrðum. Ef svo er, veitir hún viðkomandi full félagsréttindi. Nú hafnar stjórn félagsins inntökubeiðni, á þá umsækjandi rétt á að vísa úrskurði hennar til félagsfundar, sem fellir gildandi úrskurð.

5. grein.

Hver sá er öðlast hefur félagsréttindi er skyldur til að hlýða lögum félagsins, samþykktum þess og samningum, og vinna að vexti og hag félagsins í hvívetna.

6. grein.

Félagsmenn eiga rétt á því að fá hjá stjórninni eintak af lögum félagsins og gildandi kjarasamningum. Ennfremur ber að veita félagsmanni aðstoð og leiðbeiningar við uppgjör á aflahlut og öðrum kaupgjaldskröfum eftir því sem föng eru á, sömuleiðis liðsinni við ráðningu í skiprúm eftir atvikum.

7. grein.

Félagsmaður getur ekki skorast undan því að taka að sér starf, sem hann er kjörinn til að annast í þágu félagsins, nema um forföll sé að ræða, sem stjórn félagsins eða félagsfundur metur gild. Nú hefur félagsmaður átt sæti í stjórn félagsins samfellt tvö kjörtímabil eða lengur, getur hann þá skorast undan kosningu næstu tvö kjörtímabil á eftir, sbr. 11. gr.

8. grein.

Halda skal aukaskrá yfir þá félagsmenn sem skulda tveggja ára félagsgjöld eða meir, og glata þeir þá atkvæðisrétti og kjörgengi í félaginu.

Þá sem skulda þriggja ára félagsgjöld eða meira, skal strika út af félagaskrá og má eigi veita þeim inngöngu í félagið á ný, nema þeir greiði skuld sína við félagið eða gefi þær skýringar á skuldinni, sem stjórnin metur gilda. Ennfremur skal setja á aukaskrá gjaldendur vinnuréttindagjalda sbr. 20. gr.

9. grein.

Félagsmaður getur sagt sig úr félaginu, ef hann er skuldlaus við félagið, og skal úrsögnin afhendast formanni skriflega og tilgreindar ástæður. Enginn getur þó sagt sig úr félaginu eftir að ákvörðun hefur verið tekin um vinnustöðvun af félaginu eða trúnaðarmannaráði þess, og þar til vinnustöðvun hefur verið aflýst.

10. grein.

Þyki sannað að félagsmaður hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum, eða vísvitandi valdið félaginu tjóni á einhvern annan hátt, getur aðalfundur vikið honum úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Stjórn og stjórnarkosning

11. grein.

Stjórn félagsins skipa 3 menn, formaður, ritari og gjaldkeri, og skulu þeir kosnir beinni kosningu á aðalfundi til eins árs í senn. Á aðalfundi skal beðið um tilnefningu um þá sem í kjöri verða. Sá er flest atkvæði fær er rétt kjörinn. Falli atkvæði jafnt ræður hlutkesti. Komi aðeins ein tilnefning verða þeir sjálfkjörnir. Á sama hátt og á sama fundi skulu þá kosnir til sama tíma 3 varamenn, varaformðaur, vararitari og varagjaldkeri.

Deyi aðalmaður úr stjór félagsins kemur varamaður í hans stað, en kjósa skal varamann á næsta lögmætum fundi.

Stjórnarfundir og stjórnarstörf

12. grein.

Formaður skal boða til stjórnarfunda og stjórna þeim og gegna öðrum venjulegum formannsstörfum. Ritari skal halda gerðabók um stjórnar-, trúnaðarmannaráðs- og félagsfundi. Gjaldkeri skal annast sjóðgæslu félagsins og hefur umsjón með fjármálum þess. Stjórnin ræður sér starfskraft til innheimtu og annars, ef henni sýnist svo.

Varamenn í stjórn gegna öllum sömu störfum sem aðalmenn í fjarveru þeirra eða forföllum. Varamenn í stjórn skal jafnan boða á stjórnarfundi. Stjórnarfundir eru lögmætir, ef meirihluti stjórnar mætir. Fjöldi atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.

13. grein.

Stjórn félagsins fer með framkvæmdavald af hélfu félagsins. Hún hefur á hendi ákvörðunarvald um málefni félagsins, en lýtur þó fyrirmælum trúnaðarm annaráðs og félagsfunda svo og ákvarðana sem teknar eru með allsherjaratkvæðagreiðslu. Stjórnin gætir þess að lögum og samþykktum félagsins sé fylgt og kjarasamningar þess haldnir.

Trúnaðarmannaráð og starfssvið þess.

14. grein.

Á aðalfundi skal kjósa til eins árs í senn fjögurra manna trúnaðarmannaráð og jafn marga til vara. Í trúnaðarmanaráð eiga einnig sæti stjórnarmenn félagsins, en varastjórnarmenn í forföllum þeirra. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins ritari þess. Formaður kveður trúnaðarmannaráðið saman til funda og stjórnar þeim, en varaformaður í forföllum hans.

Stjórn félagsins getur borið undir trúnaðarmannaráð hvert það málefni félagsins sem hún æskir. Skylt er að halda fundi í trúnaðarmannaráði, ef helmingur trúnaðarráðsmanna krefst þess skriflega og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarmannaráðsfundur er eigi lögmætur nema að fæst fimm trúnaðarráðsmanna mæti. Trúnaðarmannaráð hefur vald til þess að taka ákvörðun um hvenær hefja skuli vinnustöðvanir og hvenær þeim skuli aflétt. Ákvarðanir um að hefja vinnustöðvanir eða aflétta þeim eru lögmætar og bindandi fyrir félagið og félagsmenn, ef 3/4 hlutar greiddra atkvæða á lögmætum trúnaðarmannaráðsfundi hafa samþykkt þær. Í öðrum málum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum á trúnaðarmannaráðsfundum.

Félagsfundir

15. grein.

Aðalfundur skal haldinn í janúarmánuði ár hvert. Þó er stjórn félagsins heimilt að halda aðalfundi fyrr, þ.e. í síðustu viku desember, ef að hennar dómi sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Er henni þá skylt að tilgreina ástæðuna á aðalfundinum. Takist ekki að ljúka aðalfundarstörfum á einum fundi, skal boða til framhaldsaðalfundar.

Þessi eru sérstök verkefni aðalfundar:

1. Gefin skýrsla um starfsemi félagsins á síðastliðnu ári.

2. Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins og sjóða þess fyrir síðastliðið ár.

3. Tekin ákvörðun um tillögur til lagabreytinga, ef fyrir eru.

4. Ákveðið árgjald félagsmanna og önnur félagsgjöld.

5. Kosning stjórnar og varastjórnar.

6. Kosning fjögurra manna í trúnaðarmannaráð og fjögurra til vara.

7. Kosnir tveir menn í stjórn Sjúkra- og styrktarsjóðs og orlofsheimilasjóðs og tveir til vara.

8. Kosning tveggja endurskoðenda og tveggja til vara.

9. Kosið í aðrar starfsnefndir, svo sem skemmtinefnd árshátíðar, fulltrúa í Sjómannadagsráð Keflavík/Njarðvík o.fl. ef þurfa þykir.

10. Önnur mál, svo sem á almennum fundum.

16. grein.

Félagsfundi skal boða svo oft sem þurfa þykir og málefni gefa tilefni til. Sé fyrirliggjandi mjög áríðandi málefni, sem að dómi stjórnarinnar þolir enga bið, en ekki er hægt að ná saman lögmætum fundi, þá skal stjórninni heimilt að kveðja saman trúnaðarmannráð, sem gerir nauðsynlegar ráðstafanir. Félagsstjórn er skylt að boða til fundar ef minnst 10 félagsmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.

17. grein.

Fundur er lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Fundur er lögmætur hafi verið til hans boðað með tveggja sólarhringa fyrirvara í fjölmiðlum, eða með öðrum sambærilegum hætti (svo sem með símtölum eða bréflega) og þegar minnst 10 menn eru mættir. Þó þarf 20 félagsmenn til að aðalfundur verði lögmætur. Verði aðalfundur ekki lögmætur skal boða til nýs fundar svo fljótt sem auðið er, og er hann þá lögmætur hafi minnst 10 menn mætt eins og á almennum félagsfundum. Aðalfund skal boða með sama hætti og sama fyrirvar og almenna félagsfundi.

Heimilt er að boða til félagsfundar með skemmri fyrirvara, ef brýn nauðsyn krefur, t.d. til lausnar vinnudeilu.

18. grein.

Formaður stjórnar fundum félagsins, nema tilmæli komi um annað frá fundarmönnum, og er honum þá skylt að hlíta því. Ætíð skal hann í byrjun aðalfundar kanna vilja fundarmanna í því efni. Hann hefur og vald til að skipa annan fundarstjóra, þótt ekki hafi komið fram tillaga um það. Komi fram fleiri en ein tillaga um fundarstjóra skal skorið úr með atkvæðagreiðslu.

19. grein.

Fjöldi atkvæða ræður úrslitum mála á félagsfundum nema þar sem öðruvísi kann að vera ákveðið í lögum þessum, sbr. 10., 24., 26. og 27. gr. Mál með jöfnum atkvæðum teljast fallin.

Í allsherjaratkvæðagreiðslum og atkvæðagreiðslum á félagsfundum, sem fjalla einvörðungu um uppsögn eða samþykkt kjarasamninga eða framkvæmd vinnustöðvunar, hafa einungis starfandi skipstjórar og stýrimenn atkvæðisrétt.

Fjármál

20. grein.

Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi ár hvert og er það tvenns konar:

a) gjald, sem starfandi skipstjórnarmönnum er skylt að greiða, og

b) lægra gjald, sem aðrir félagsmenn greiða, og skal það gjald aldrei lægra en sem svarar érlegum skatti af hverjum félagsmanni til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Stjórninni er heimilt að ákvarða og innheimta vinnuréttindagjald, sem utanfélagsmönnum er vinna á samningum félagsins á félagssvæðinu ber að greiða.

21. grein.

Mýir félagsmenn sem teknir eru inn í félagið á fyrra árshelmingi greiða fullt félagsgjald fyrir það ár, en þeir sem teknir eru inn á síðara árshelmingi greiða hálft gjald.

Hver félagsmaður verður gjaldfrír á því ári er hann verður 67 ára. Félagsstjórn er heimilt að undanþiggja menn félagsgjöldum, ef veikindi eða aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

22. grein.

Sjóði félagsins skal ávaxta í lánastofnunum, er hafa ríkisábyrgð á sparifé og með kaupum á vísitölu- og/eða verðtryggðum skuldabréfum með ríkisábyrgð, eftir nánari ákvörðun félagsstjórnar. Úr félagssjóðum skal greiða nauðsynlegan kostnað vegna starfsemi félagsins og skal að jafnaði inna greiðslur af hendi með tékkum.

23. grein.

Reikningsár félagsins miðast við 1. nóvember til 31. október.

Ýmis ákvæði

24. grein.

Heiðursfélaga má einvörðungu kjósa með þeim hætti, að stjórn félagsins flytji um það tillögu á félagsfundi og tillagan sé samþykkt þar með samhljóða atkvæðum. Heiðursfélagar eru gjaldfrjálsir.

25. grein.

Heimilt er að láta fara fram allsherjar atkvæðagreiðslu í félaginu um stærri mál, og skal þá haga henni þannig að kjósandi þurfi aðeins að krossa við já eða nei. Rétt til að ákveða slíka atkvæðagreiðslu hefur félagsfundur svo og stjórn félagsins í samráði við trúnaðarmannaráð. Stjórn félagsins sér um undirbúning og framkvæmd allsherjar atkvæðagreiðslna og ber ábyrgð á að þær fari fram á eðlilegan og tryggilgegan hátt.

26. grein.

Komi fram tillaga um að leysa félagið upp, verður hún eigi tekin til greina nema hún sé studd af minnst 1/4 félagsmanna, og skal þá höfð um hana allsherjar atkvæðagreiðsla. Tillagan telst því aðeins samþykkt, að hún hljóti 2/3 greiddra atkvæða.

Verði félagið leyst upp skulu gerðabækur þess og skjöl ásamt öðrum eignum afhent Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands til fullrar eignar.

27. grein.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi, enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund og skulu þær auglýstar í fundarboði. Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga, enda feli breytingartillögurnar ekki í sér óskylt efni við upprunalegu tillögurnar.

Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

Lög þessi öðlast gildi og koma til framkvæmda þegar stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands hefur staðfest þau.

Félagið er aðili að Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og ber að sjálfsögðu að fara að lögum þess.

Lög félagsins voru upphaflega samin 22. jan. 1946 og rædd á stofnfundi 8. des. sama ár. Þau voru samþykkt endanlega á framhaldsstofnfundi (ódagsett) sennilega kringum áramót 1946-1947.

Viðauki varðandi trúnaðarmannaráð var samþykktur á fundi 22. jan. 1961. Lög þessi eins og þau eru birt hér voru samþykkt á aðalfundi Vísis 29. jan. 1978 og staðfest af F.F.S.Í. í mars sama ár.