Saga félagsins
Ingólfur Falsson skrifaði.
Stofnun Vísis
Árið 1942 var starfandi í Reykjavík skipstjóra- og stýrimannafélagið Grótta. Á þess vegum var sendur maður um öll Suðurnesin til að safna félögum. Margir gerðust þar félagar, þó sérstaklega úr Keflavík og Garði, en það kom fljótt í ljós að sérhagsmunir voru miklir hér syðra. Haustið 1946 hélt Gróttan deildarfund í Keflavík og eftir að fundinum lauk sátu nokkrir félagarnir saman og skeggræddu málin. Var þá tekin ákvörðun um að stofna sérfélag.
Svona var umhorfs í Keflavíkurhöfn áður fyrr.
Bátum á Suðurnesjum hefur fækkað.
Bátum á Suðurnesjum hefur fækkað.
Stofnfundur skipstjóra- og stýrimannafélagsins var síðan haldinn í Ungmennafélagshúsinu í Keflavík 8. desember 1946. Á þeim fundi var einróma samþykkt að félagið skyldi heita Vísir og stjórn kosin, en hana skipuðu: Formaður Þórhallur Vilhjálmsson, gjaldkeri Falur Guðmundsson og ritari Kristinn Árnason. Á þessum fundi var einnig kosið í sjómannadagsráð. Fleira var ekki gert og fundi frestað.
Svona er umhorfs í dag.
Svona er umhorfs í dag.
Framhaldsstofnfundur var síðan haldinn 29. desember og á þeim fundi voru samþykkt lög fyrir félagið. Í fyrstu grein segir: Félagið heitir Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir, heimili þess og varnarþing er í Keflavík. Félagssvæði þess nær yfir Njarðvík, Keflavík og Miðneshreppa. Þessum lögum hefur tvisvar verið breytt, í janúar 1961 og janúar 1979. Í dag segir í fyrstu grein: Félagið heitir Vísir og er stéttarfélag skipstjóra og stýrimanna á Suðurnesjum. Félagssvæði þess er Gullbringusýsla sunnan Hafnarfjarðar, það er Suðurnes. Það má fullyrða að frá stofnun til þessa dags hafi félagið verið vel virkt og unnið að mörgum framfaramálum fyrir sjómannastéttina.
Blaðað í fundargerðum
Það er fróðlegt að blaða í fundargerðum félagsins í gegnum árin. Strax á fyrsta fundi er kosin nefnd til að ræða við hafnaryfirvöld um ýmislegt sem betur mætti fara, svo sem bryggjuvörslu, vatn á bryggjur, síma við höfnina, salernisaðstöðu og margt fleira og má segja að þessi mál hafi verið rædd á mörgum fundum í mörg ár, því hægt virðist hafa gengið að fá fram úrbætur og jafnvel enn þann dag í dag hefur ekki allt náðst fram sem rætt var um.
Í desember 1949 var kosin nefnd til að fylgjast með friðun línu- og netasvæða í Miðnessjó og átti nefnd þessi ennfremur að taka til meðferðar að skipuleggja talstöðvartíma bátanna í verstöðvum við Faxaflóa á vertíðinni.
8. nóvember 1950 er eftirfarandi meðal annars samþykkt: Fundur í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi samþykkir að fara þess á leit við þing FFSÍ að það beiti sér fyrir því við Alþingi og ríkisstjórn að færeyskum fiskiskipum verði ekki seld beitusíld til veiða hér við land, undanfarnar vertíðir hefur mikill fjöldi færeyskra fiskiskipa verið á línuveiðum á þeim miðum sem Keflavíkur- og Sandgerðisbátar sækja á og með því að selja þeim beitu hér í höfn er þeim sköpuð betri aðstaða til að fiska en okkar bátum. Á þessum fundi skorar Vísir á FFSÍ að vinna að friðun Faxaflóa fyrir botnvörpu innan línu frá Geirfugladrangi í Öndverðarnes.
7. des.1950 er þetta meðal annars samþykkt: Fundurinn samþykkir að vegna síhækkandi kostnaðar viðvíkjandi hlutaskiptum á vélbátum treysta félagsmenn sér ekki til að ráða nauðsynlegan mannskap á komandi vertíð verði fiskverð undir 1.30 pr. kg slægt með haus.
31. október 1952 er þetta meðal annars samþykkt: Þar sem sjómannasamningum hefur verið sagt upp verði farið fram á það við útgerðarmenn að þeir taki matsveina inn í nýja samninga.
19. október 1954 lá fyrir bréf frá Kvennadeild Slysavarnafélagsins í Keflavík, þar sem farið er fram á að hver bátur leggi fram fisk sem svarar til afla af einu bjóði einhvern tíma á vetrarvertíðinni. Samþykkt að hver bátur gefi andvirði eins skippunds fisks upp úr sjó.
31. október 1957 er samþykkt að fara fram á að stýrimenn fái 1 1/2 hásetahlut á öllum fiskveiðum og hlutatryggingu í samræmi við það og að skipstjórar fái sömu tryggingu og stýrimenn. Fram að þeim tíma höfðu stýrimenn haft 11/3 hásetahlut á vetrarvertíðum.
Á fundi 11. nóvember 1958 höfðu menn miklar áhyggjur af því að erfitt mundi verða að manna bátana á komandi vetrarvertíð, þar sem litlar líkur væru á að Færeyingar fengjust á bátana. Rætt var um málið og voru menn sammála um að kjör sjómanna á fiskiflotanum væru ekki nógu góð samanborið við aðra vinnu. Á þessum sama fundi kom fram tillaga um hvort ekki væri tímabært að stofna Grænlandsdeild sem berðist fyrir því að Íslendingar fengju í framtíðinni aðstöðu til fiskveiða við Grænland t.d. eins og Færeyingar. Samþykkt var að hafa samvinnu við útvegsmannafélag Keflavíkur um mál þetta.
Á fundi 28. september 1960 var samþykkt að félagið legði fram fé til fyrirhugaðs félagsheimilis í Keflavík, en eins og allir vita hefur þetta félagsheimili aldrei verið byggt. 20. maí 1964 var samþykkt að stofna sjúkra- og styrktarsjóð fyrir félagið og á aðalfundi 10. janúar 1965 voru samþykktar reglur fyrir sjóðinn.
Á aðalfundi 30. desember 1967 var samþykkt að veita stjórninni þóknun og var það samþykkt af öllum nema stjórnarmönnum.
Á aðalfundi 7. janúar 1973 er samþykkt að stjórnin hafi heimild til að kalla saman félagsmenn til skrafs og ráðagerða um ráðstafanir á sjóðum félagsins og ráðningu starfsmanns fyrir félagið.
Á aðalfundi 2. janúar 1977 kom fram tillaga um að stjórn félagsins beitti sér fyrir kaupum á orlofshúsi sem allra fyrst. Allmiklar umræður urðu um þessa tillögu, meðal annars kom fram sú hugmynd hvort ekki væri hentugra að leita eftir kaupum á landi þar sem aðstaða væri til orlofsdvalar. Samþykkt var að vísa tillögunni til stjórnar til yfirvegunar og afgreiðslu. Tveimur árum seinna voru þessi mál til umræðu, en síðan var það á fundi 10. ágúst 1980 að samþykkt voru kaup á Hallanda.
Á aðalfundi 30. desember 1986 kynnti formaður að tekið hefði verið á leigu húsnæði fyrir starfsemi félagsins á Hafnargötu 90. Á sama fundi var meðal annars kosin öryggismálanefnd.
Á fundi 4. október 1987 var samþykkt að kaupa hlutabréf í Fiskmarkaði Suðurnesja fyrir 250.000 krónur. Á sama fundi var skorað á stjórnvöld að þegar yrði hafist handa við uppbyggingu þaulskipulagðrar öryggis- og björgunarþjónustu sem búin væri nýrri og öflugri þyrlu sem bæri a.m.k. 24 menn og væri búin afísingartækjum. Þjónusta þessi yrði undir öflugri stjórn LHGÍ.
Á aðalfundi 29. desember1990 var samþykkt að stofnaður yrði sjóður í minningu um Kristján Ingibergsson, fyrrverandi formann. Sjóðurinn skal heita Björgunar- og slysavarnarsjóður í minningu Kristjáns Ingibergssonar. Fyrsta markmið sjóðsins skal vera að styrkja kaup á fullkominni björgunarþyrlu, en eftir það stuðla að frekara öryggi sjómanna eftir ákvörðun stjórnar hverju sinni. Í þriðju grein reglna sjóðsins segir: Sjóðurinn skal fjármagnaður með 10% framlagi af félagsgjöldum Vísis og sölu minningarkorta. Ennfremur söfnunarátökum ef þurfa þykir.
Á aðalfundi 30. desember1994 var samþykkt að fela stjórn félagsins að kanna hvort ekki gæti verið hagkvæmt að ráða starfskraft í hálft starf sem hefði það í för með sér að hægt væri að hafa opna skrifstofu félagsins. Jafnframt mundi þessi starfskraftur geta létt störfum af gjaldkera í sambandi við innheimtu, sölu veiðileyfa, úthlutun orlofshúsa í samráði við jarðanefnd o.fl. o.fl.
Á fundi 4. mars 1995 kom fram að afhentar hefðu verið 2 milljónir úr Björgunar- og slysavarnarsjóði Kristjáns Ingibergssonar 23. febrúar síðastliðinn til kaupa á tækjum í nýja þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF Líf. Afhendingin fór fram um borð í Ægi í Keflavíkurhöfn.
Félagið hefur í gegnum árin veitt ýmiss konar styrki og framlög til hinna ýmsu félaga á félagssvæði sínu. Þar má nefna styrk til sjómannastofunnar Víkur, sem rekin var um tíma í Keflavík; styrk til sundlaugarbyggingar í Grindavík; styrk til kaupa á kappróðrabátum í Sandgerði, Keflavík og Grindavík; styrk til gerðar minnismerkja í Grindavík og Keflavík; fjárframlög til björgunarsveita á félagssvæðinu o.fl. o.fl.
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands
Félagið gekk í FFSÍ árið 1949, fyrsti fulltrúi þess á þingi var Árni Þorsteinsson. Í dag hefur félagið rétt til að senda fimm fulltrúa á þing FFSÍ. Félagið hefur átt fulltrúa í stjórn sambandsins frá 1965, fyrst Árna Þorsteinsson til 1967, þá Ingólf Falsson til 1984, Kristján Ingibergsson til 1990 og í dag á Ölver Skúlason sæti í stjórninni.
Félagið hefur frá upphafi tekið virkan þátt í kjarabaráttu innan FFSÍ og sent samninganefndir til allrar samningsgerðar varðandi fiskimenn á vegum sambandsins. Þótt segja megi að félag okkar sé mjög blandað félögum, þ.e.a.s. í félaginu eru margir sem jafnframt eru útgerðarmenn eða eigendur í bátum að hluta, hefur það ekki skaðað félagið að mínu mati, menn hafa verið það félagslega þroskaðir í kjarabaráttunni og baráttunni um aukið öryggi til handa íslenskum sjómönnum.
Hallandi
Hallandi
Á aðalfundi 30. desember 1980 var fyrst kosið í orlofsheimilasjóð eða jarðanefnd eins og hann ávallt er nefndur. Fyrsta jarðanefnd var skipuð þeim Jóhannesi Jóhannessyni, Snorra Gestssyni og Grétari Mar Jónssyni. Síðan hefur verið að smáfjölga í nefndinni og í dag er hún skipuð ellefu mönnum. Þegar Hallandinn var keyptur hafði hann ekki verið í ábúð í 4-5 ár.Samfara því að milli jóla og nýárs 1980 gerði mikla snjóa í Hraungerðis-hreppnum, svo að allir sveitavegir urðu ófærir í um vikutíma, varð olíulaust á bænum svo frostsprakk á flestum ofnum. Mikla vinnu varð því að leggja í að koma húsunum í viðunandi lag. Voru húsin fyrst leigð út um verslunarmannahelgina 1981. Hallandi er tvö sambyggð hús; gamli bærinn (byggður 1930) og nýja húsið (byggt 1961). Húsin eru steinsteypt. Það var öllum ljóst í upphafi að mikið starf var fyrir höndum og húsin þurftu mikla upplyftingu, sérstaklega gamli bærinn, sem í upphafi var ekki með í myndinni sem íbúð, svo illa var hann farinn. Það væri langt mál og mikið að fara að rekja gang mála við uppbygginguna í smáatriðum og geta allra þeirra manna og kvenna sem lagt hafa hönd á plóginn til að gera Hallanda að því sem hann er í dag, en þó verður ekki hjá því komist að geta þeirra Jóhannesar Jóhannessonar, Snorra Gestssonar, Jóns Björns Vilhjálmssonar, Ingólfs Falssonar, Braga Guðjónssonar, Hafsteins Guðnasonar og Guðmundar Garðarssonar, sem hafa í gegnum árin unnið mikið og fórnfúst starf. Ekki má heldur láta hjá líða að nefna Jónas Ingimundarson, sem í gegnum árin hefur verið félagsmönnum stoð og stytta og unnið mikið að uppbyggingunni. Gísli Ágústsson, byggingameistari á Selfossi, hefur séð um viðbyggingar og klæðningu á húsum.
Skal nú drepið á það helsta sem gert hefur verið: Byggður var við gamla húsið inngangur ásamt salernisaðstöðu og sólskála. Byggður sólskáli við nýja húsið, húsin klædd að utan, skipt um upphitunarkerfi úr olíu í rafmagn, lagðar nýjar raflagnir í gamla húsið, gluggar og gler endurnýjað svo og eldhúsinnréttingar, parket sett á öll gólf, útihús fjarlægð, lagðar gangstéttir og komið fyrir sólpalli, útbúinn spark- og púttvöllur, komið fyrir leiktækjum fyrir börnin, girðingar endurnýjaðar, gróðursett við heimkeyrslu og lóðarmörk (að litlum hluta, um 150 ha.). Nýting húsanna hefur verið mjög góð frá upphafi, en nú á haustdögum hefur verið úthlutað 356 vikum á orlofstímum og leiga aukist mikið á öðrum tímum ársins. Félagið á laxveiðirétt í Hvítá og hafa samtals verið seldir 973 stangveiðidagar. Frá því að Hallandinn var keyptur hafa gjaldkerar félagsins, þeir Jóhannes Jóhannesson og Hafsteinn Guðnason, borið hitann og þungann af því sem gert hefur verið ásamt því að sjá um útleigu húsana og veiðinnar í samráði við jarðanefnd.
Rekstur félagsins
Félagsgjöldum hefur frá upphafi verið stillt mjög í hóf og hafa þau ekki verið nema hluti þess sem er hjá öðrum félögum. Þrátt fyrir það hefur tekist að eignast Hallandann skuldlausan og peningaleg staða er góð. Þetta hefur tekist þar sem lítið hefur verið greitt fyrir þau störf sem stjórnin hefur unnið fyrir félagið og hefur þar mest reynt á gjaldkerana, sem urðu að leggja heimili sín undir starfsemi félagsins. Á því varð breyting fyrir tíu árum, þegar tekið var á leigu skrifstofuhúsnæði.
Það var árið 1973 að fyrst var farið að tala um að ráða starfsmann til félagsins og hefur það gerst svo til árlega síðan. Það er svo 1. febrúar 1996 að ráðinn er framkvæmdastjóri til félagsins í hálft starf og er það Jóhannes Jóhannesson, fyrrverandi gjaldkeri félagsins til margra ára.
Frá fjörutíu ára afmæli félagsins. Kristján heitinn Ingibergsson, heiðrar eldri félaga.
Sjúkra- og styrktarsjóður
Eins og áður sagði var stofnaður sjúkra- og styrktarsjóður 1965. Um vörslu hans sá Björn Jóhannsson til 1979, þá Jóhannes Jóhannesson til 1991 og Hafsteinn Guðnason til 1996.
Markmið sjóðsins er að styrkja félagsmenn Vísis er missa vinnutekjur sínar vegna sjúkdóms eða slysa, með því að greiða þeim dagpeninga í slysa- og sjúkdómstilfellum, svo og að styrkja ekkjur félagsmanna, er misst hafa menn sína vegna slysa eða veikinda.
Athugið einnig stjórnir Vísis frá upphafi.