Reglugerð Styrktar- og sjúkrasjóðs
Reglugerð fyrir Styrktar- og sjúkrasjóð Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum
1. grein.
Sjóðurinn heitir Styrktar– og sjúkrasjóður Vísis félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Heimili hans og varnarþing er í Keflavík.
2. grein.
Tilgangur sjóðsins er að greiða félögum sínum styrk eða dagpeninga í veikinda- og slysatilvikum.
Sjóðsstjórn er heimilt að veita fjármunum til líknarstarfa, en gæta skal þess að fjárútlát samkvæmt þessari mgr. hindri ekki að sjóðurinn geti staðið við önnur markmið sín.
3. grein.
Tekjur sjóðsins eru:
a) samnings- og lögbundnar greiðslur atvinnurekenda til sjóðsins,
b) vaxtatekjur og annar arður,
c) aðrar tekjur.
4. grein.
Sjóðsstjórnin skal ávaxta sjóðinn og allt er honum til fellur og skal hún á hverjum tíma kappkosta að ávaxta fé hans á sem hagkvæmastan hátt.
Sjóðnum skal heimilt að eiga eignir tengdar starfsemi sjóðsins.
5. grein.
Rétt til dagpeninga úr sjóðnum eiga:
a) hver félagsmaður, sem hefur a.m.k. 6 mánaða félagsaðild og greitt hefur verið af iðgjald til sjóðsins. Fari hann úr iðgjaldaskyldu starfi heldur hann sjóðsréttindum í 6 mánuði frá því starfi lauk, enda hafi hann ekki öðlast fyrr rétt í öðrum sjúkrasjóði,
b) þeir sem greitt hefur verið af til sjóðsins án félagsaðildar í a.m.k. 6 undangengna mánuði,
c) félagar í fiskimannafélögum innan F.F.S.Í, þ.m.t. aukafélagar, skulu hafa gagnkvæman rétt í sjúkra- og styrktarsjóðum aðildarfélaganna á eftirfarandi hátt:
i. Þannig öðlast félagsmaður, sem starfar á félagssvæði annars félags, rétt til sjúkrabóta samkvæmt reglum viðkomandi sjóðs, ef af honum hefur verið greitt til sjóðsins í a.m.k. 6 undangengna mánuði.
ii. Hætti viðkomandi störfum á félagssvæðinu, heldur hann áunnum réttindum hjá sjóðnum næstu 6 mánuði, enda hafi hann ekki öðlast rétt fyrr hjá sjúkrasjóði annars félags.
Ákvæði c) liðar gildir einungis gagnvart félagsmönnum í þeim félögum sem staðfest hafa þetta ákvæði í sinni reglugerð fyrir sjúkra- og styrktarsjóð.
Ákvæði stafliða a), b) og c) gilda þó ekki um þá, sem eru við störf á erlendum vinnumarkaði, nema greidd séu iðgjöld til sjóðsins og viðkomandi njóti veikindaréttar samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum.
6. grein.
Greiðslur úr sjóðnum skulu lúta þessum reglum:
1. Dagpeningar greiðast frá þeim degi er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur.
2. Hámarkslengd þess tíma er dagpeningar eru greiddir skal vera 6 mánuðir. Dagpeningar greiðast jafnt helga daga sem virka.
3. Dagpeningar greiðast ekki fyrir færri veikindadaga en fjóra.
4. Dagpeningar greiðast ekki, þegar um varanlega örorku eða ellihrumleik er að ræða, enda séu þeir ekki lengur á almennum vinnumarkaði, né til þeirra sem njóta lífeyris frá almannatryggingum eða lífeyrissjóði.
5. Upphæð dagpeninga skal vera sem hér segir:
a) fyrir einstakling á dag 2,0% af kauptryggingu skipstjóra eins og hún er á hverjum tíma,
b) börn innan 17 ára á framfæri umsækjanda, á dag 0,4% af kauptryggingu eins og hún er á hverjum tíma.
6. Dagpeningar samkvæmt þessari grein greiðast mánaðarlega, nema veikindi vari skemur.
7. grein.
Stjórn sjóðsins er ennfremur heimilt að veita félagsmönnum styrk, greiða þeim dagpeninga, eða endurgreiða kostnað í eftirfarandi tilvikum, enda fullnægi þeir að öðru leyti skilyrðum sjóðsins um styrkhæfni, sbr. ákvæði 5.greinar stafliður a).:
1. Greiða hlutdeild félagsmanns vegna kostnaðar við sjúkraþjálfun á viðurkenndri sjúkrastofnun vegna sjúkdóms eða slysa, enda sé það gert samkvæmt læknisráði.
2. Styrkja þá félagsmenn sem leita þurfa aðstoðar og endurhæfingar á viðurkenndum meðferðarstofnunum vegna áfengissýki. Leggja skal til grundvallar sjúkravottorð viðkomandi meðferðarstofnunar við ákvörðun styrks eða dagpeninga. Hver félagsmaður skal þó einungis eiga rétt til styrks einu sinni vegna fyrrnefndrar meðferðar.
3. Styrkja þá félagsmenn sem verða fyrir verulegum tekjumissi vegna veikinda maka eða barna.
4. Styrkja maka og/eða börn starfandi félagsmanna við fráfall þeirra. Heimilt er að verja allt að andvirði einnar og hálfrar (1,5) kauptryggingar skipstjóra í þessu skyni.
5. Styrkja þá félagsmenn er njóta bóta vegna örorku eða ellihrumleika. Við mat á styrkþörf samkvæmt þessari grein skal m.a. taka tillit til bótatekna frá almannatryggingum og lífeyrissjóði, skaðabótakrafna og sjúkrabóta, fjölskyldustærðar og annarra fjölskylduaðstæðna.
8. grein.
Allar umsóknir skulu ritaðar á þar til gerð eyðublöð, er sjóðsstjórnin lætur umsækjendum í té og skal þeim fylgja:
1. Læknisvottorð sem tilgreini hvenær og hversvegna viðkomandi verður óvinnufær.
2. Vottorð vinnuveitenda um hvenær samningsbundnum launagreiðslum lýkur.
3. Aðrar tekjur, hverjar.
Þegar bótaþegi verður vinnufær að nýju skal hann án tafar tilkynna það sjóðsstjórn með læknisvottorði.
Heimilt er sjóðsstjórn að krefjast þess að umsækjandi um dagpeninga, eða bótaþegi, leggi fram vottorð frá sérstökum trúnaðarlækni sjóðsins.
Réttur til dagpeninga fyrnist, sé þeirra ekki vitjað innan 2ja mánaða frá afgreiðsludegi sjóðsins. Sjóðsstjórn getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði.
9. grein.
Þegar farsóttir geisa getur sjóðsstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Sjóðsstjórn getur einnig ákveðið að lækka upphæð dagpeninga um stundarsakir, þó ekki yfir skemmri tíma en 6 mánuði, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
10. grein.
Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu Vísis félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum. Allan beinan kostnað við rekstur sjóðsins greiðir hann sjálfur. Árlegan kostnað vegna afgreiðslu og skrifstofuhalds skal fyrst um sinn ákveða með samkomulagi milli sjóðsstjórnar og stjórnar félagsins.
11. grein.
Á aðalfundi, þegar stjórnarkjör til félagsstjórnar fer fram, skal kjósa þrjá menn í stjórn sjóðsins og tvo til vara. Stjórnin skiptir með sér verkum.
12. grein.
Sjóðurinn skal hafa reikningsfærslu út af fyrir sig, sem sýni jafnan viðskipti við félagsmenn.
13. grein.
Reikningar sjóðsins skulu lagðir fram endurskoðaðir ár hvert. Reikningsár sjóðsins skal vera það sama og félagsins á hverjum tíma.
14. grein.
Reglugerð þessari má aðeins breyta á aðalfundi félagsins og þarf ¾ greiddra atkvæða til að breytingar taki gildi.
Þannig samþykkt á aðalfundi 29. desember 2000.